Hugvísindaþing!

Við viljum vekja athygli bókmenntafræðinema á hinu árlega Hugvísindaþingi
sem verður haldið 13. og 14. mars í Aðalbyggingu Háskólans. Nánari
upplýsingar um þingið er að finna á vef Hugvísindastofnunar
http://www.hugvis.hi.is/page/hugvis_thing2009_Dagskra

Mörg erindi ættu að vera á ykkar áhugasviði og viljum við nefna nokkrar
málstofur í því sambandi:

Akkerum varpað í Karíbahafi. Bókmenntir og menning
14. mars kl. 15.00-17.00
Í þessari málstofu fjalla fjórir fyrirlesarar um menningu og bókmenntir í
Karíbahafi, þar sem margbrotin blanda þjóða og menningar hefur í senn skapað
átök og sköpunarkraft.

Bókmenntahlaðborð
14. mars kl. 13.00-14.30 og 15.00-16.30
Í þessari málstofu verða fluttir sex fyrirlestrar um bókmenntir og menningu.
Þrír þeirra eiga það sameiginlegt að tengjast Ítalíu, hver með sínum hætti.
Í síðari hluta málstofunnar er boðið upp á þrjá fyrirlestra um bókmenntir.

Grímur Thomsen og Fjölnismenn
14. mars kl. 10.30-12.00
Í málstofunni verða haldin þrjú erindi um Grím Thomsen og Fjölnismenn.

Handritin hafa orðið.
Menning og miðlun hins skrifaða orðs frá síðmiðöldum og fram á 19. öld
14. mars kl. 13.00-14.30 og 15.00-16.30
Í málstofunni verður fjallað um handrit og handritasamfélagið frá ýmsum
hliðum og ólíkum tímum.

"Hvatt að rúnum".
Málþing um ritverk Álfrúnar Gunnlaugsdóttur
14. mars kl. 13.00-14.30 og 15.00-17.00
Álfrún Gunnlaugsdóttir prófessor í almennri bókmenntafræði og rithöfundur
varð sjötug á síðasta ári. Af því tilefni bjóða bókmenntafræðingar innan
Háskólans og utan til málþings um ritverk hennar og rannsóknir.

"Íþrótt vammi firrð". Málstofa um bragfræði
13. mars kl. 15.00-17.00 og fram haldið 14. mars kl. 13.00-14.30
Í þessari málstofu koma saman fræðimenn sem hafa áhuga á formþáttum
kveðskapar og aðferðum við greiningu þeirra.

Knattleikir og bókmenntir
14. mars kl. 10.00-12.00
Þessari málstofu er ætlað að sýna að íþróttir, og sérstaklega í þessu
tilfelli knattleikir, geta verið mjög athyglisvert viðfangsefni í ýmiss
konar bókmenntum og öðrum listformum, bæði í fornöld og í nútímanum.

Myndir og orð
13. mars kl. 15.00-17.00
Í þessari málstofu verða könnuð mörk mynda og orða frá ýmsum sjónarhornum.
Rætt verður um kennslu í myndlæsi, um texta og kvikmyndir, þ. á m.
kvikmyndaþýðingar og myndir í ljóðum.

Snákar, bjöllur og heilagir menn: minni í miðaldabókmenntum
13. mars kl. 15.00-17.00
Í málstofunni verða flutt fjögur erindi um minni í miðaldabókmenntum.

Thor í tímans straumi
13. mars kl. 15.00-16.30
Ólíkar hliðar á verkum Thors Vilhjálmssonar verða í brennidepli á þessari
málstofu, og mun athyglin meðal annars beinast að skáldsögum hans,
ferðabókum og ritgerðasöfnum.

Unglingabækur - bækur fyrir hverja?
14. mars kl. 10.30-12.00
Í þessari málstofu verður fjallað um nýjar og nýlegar unglingabækur.

Einnig vekjum við sérstaka athygli á tveimur málstofum um kreppu og velferð
og hlutverk hugvísindamanna ísamfélagsumræðu.

Hlutverk hugvísindamanna í samfélagsumræðu
13. mars kl. 13.00-14.30 í stofu 101 í Lögbergi

Málshefjandi: Vilhjálmur Árnason, prófessor í heimspeki
Pallborðsumræður.
Þátttakendur:

Guðni Elísson, dósent í bókmenntafræði
Gunnar Karlsson, prófessor í sagnfræði
Hjalti Hugason, prófessor í guðfræði
Hólmfríður Garðarsdóttir, dósent í spænsku

Salvör Nordal stýrir umræðum

Velferð og kreppa
Málstofa Ritsins
13. mars kl. 15.00-16.30
Eins og undanfarin ár býður Ritið upp á málstofu á Hugvísindaþingi um
málefni sem brennur á samtímanum. Árið 2007 var fjallað um innflytjendur,
árið 2008 um hlýnun jarðar og í ár er einboðið að fjalla um kreppu.
Fyrirlesarar eru af ólíkum sviðum hugvísinda: guðfræði, hagsögu og
heimspeki. Stefnt er að því að gefa út þemahefti Ritsins um sama efni.

 

Miðasala á árshátíðina

Minni á miðasölu fyrir árshátíðina á morgun, föstudag, kl 11:30-12:30 í Árnagarði og á mánudag frá kl 9 um morguninn og fram eftir degi.

Hægt er að hafa samband hér í athugasemdum eða í emaili á hah27@hi.is, panta miða og leggja inn á reikning ef miðasalan er á óheppilegum tímum.

Athugið að miðasölu lýkur að kveldi mánudags!


Árshátíð 7. mars

Þann 7. mars næstkomandi mun Torfhildur, félag bókmenntafræðinema, halda árshátíð á Hótel Sögu, ásamt níu öðrum nemendafélögum í HÍ.

Árshátíðin hefst með glæsilegu hlaðborði þar sem hvert nemendafélag verður út af fyrir sig.

Húsið opnar kl 19:00 og borðhald hefst kl 19:45. Matseðilinn má sjá hér að neðan. Torfhildur mun að öllum líkindum bjóða upp á fordrykk síðdegis áður en haldið verður á Hótel Sögu, nánar auglýst síðar.

Eftir borðhald og skemmtilegheit sameinast félögin 10 á dansgólfið í Súlnasal þar sem sveitaballahljómsveitin Hitakútur mun leika fyrir dansi fram á rauða nótt.

Miðaverð er aðeins 4500 kr fyrir meðlimi Torfhildar og 5500 kr fyrir aðra. Þess má geta að skráðir félagsmenn í Rýninum, félagi kvikmyndafræðinema, geta keypt miða á 4500 kr hjá Torfhildi.

Því miður búum við ekki svo vel að hafa posa svo nauðsynlegt er að greiða með reiðufé eða millifæra inn á reikning. Við minnum á hraðbanka á Háskólatorgi.


árshátíð

 

Matseðill

 

Forréttir

Appelsínu marineraður skelfiskur

Basil og engifer marineruð bleikja

Salat með grilluðum ananas og engiferdressingu

Kjúklingastrimlar í sate sósu

Túnfiskur í maki með sesamfræjum

Nautaþynnur á klettasalati

 

Aðalréttir

Kryddjurta marinerað lambalæri

Ferskasti fiskur dagsins á grænmetis risotto

Kartöflugratín

Fersk grænmetisblanda

Rauðvínssósa

 

Ábætisréttir

Desert kökur

Heimalagaður ís


Vísindaferð í Bjart

Hæ kæru bókmenntafræðinemar.

Torfhildi er boðið í vísindaferð í útgáfufélagið Bjart föstudaginn 13. febrúar kl 17.

Skráning er hér að neðan í athugasemdum.

Aðeins 15 komast að svo það er um að gera að skrá sig fljótt!

Bestu kveðjur,
Torfhildur.

ps. Torfhildur heldur árshátíð og ball 7. mars n.k. ásamt fleiri nemendafélögum. Nánar auglýst síðar en takið daginn frá!

ps 2. Torfhildur er alltaf opin fyrir hugmyndum að atburðum, uppákomum, skemmtunum og gleðsköpum, félögum til gangs og gamans. Ef þið hafið slíkar skrifið þær þá endilega hér í athugasemdirnar eða sendið póst á hah27@hi.is.


Bjórkvöld og vísindaferð

Kæru bókmenntafræðinemar!

Félagið ykkar, hún Torfhildur, ætlar að halda ölkvöld á fimmtudaginn 5. febrúar næstkomandi á hinni rómuðu ölstofu Celtic Cross kl 20:00. Þar verður hægt að kaupa öl á spottprís: 550 kr fyrir stóran bjór á krana gegn framvísun félgasskírteinis Torfhildar. Slíkt skírteini verður hægt að versla sér á staðnum fyrir þá sem hafa áhuga á því.

Á föstudaginn 6. febrúar fer Torfhildur svo í vísindaferð ásamt sagnfræðinemum til Sjálfstæðisflokksins. Skráning er hér með hafin í athugasemdum við þessa færslu og eru um 15 sæti í boði.

Torfhildur vill taka skýrt fram að hún tekur enga afstöðu gangvart einum né neinum stjórnmálaflokki þó hún taki boði Sjálfstæðisflokksins. Að sjálfsögðu vonast hún til að geta boðið upp á vísindaferðir í sem flesta aðra stjórnmálaflokka síðar meir.

Bestu kveðjur,
Torfhildur – sem hvetur alla til að mæta!

Jólabókakvöld!

Næsta föstudag, 21. nóvember, heldur Mímir (félag íslenskunema), í samstarfi við Torfhildi og Artimu, upplestrarkvöld jólabóka. Þrír höfundar munu lesa upp úr nýjum verkum sínum, þau Ármann Jakobsson, Auður Jónsdóttir og Hallgrímur Helgason en auk þeirra munu tvö innanhússkáld lesa upp, nemendur úr íslensku og bókmenntafræði. Upplesturinn fer fram í stofu 201 í Árnagarði og hefst kl. 20:00. Eftir upplesturinn verður boðið upp á heitt kakó, kaffi, piparkökur, rautt og hvítt osfrv. Öllum er velkomið að koma með vini og maka með sér og vonandi mun skapast skemmtileg jóla- og bókastemmning.

Torfhildur hvetur alla bókelskandi bókmennafræðinema til að mæta og taka vini sína með!


Vísindaferð föstudaginn 31. október

Stuttur fyrirvari, en Torfhildi er boðið í vísindaferð í Landsvirkjun á föstudaginn með mannfræði og þjóðfræðinemum. Skráning hefst hér með í athugasemdum við færsluna og höfum við 9 sæti. Félagsmenn Torfhildar ganga fyrir í skráningunni.

Því má bæta við að þjóðfræðin og mannfræðin ætla að mæta í grímubúningum í tilefni Halloween og svo verður eitthvað skemmtilegt Halloween glens eftir á. Við hvetjum því Torfhildar-fólk til að mæta líka í búningum! Mæting verður kl 17 í Landsvirkjun, Háaleitisbraut 68, á föstudag, hlökkum til að sjá ykkur!

Enn er hægt að skrá sig í þau sæti sem eftir eru!

 


Pubquiz - taka tvö

Kæru vinir.

 

Vegna leiðra mistaka af hálfu barsins 22 síðastliðinn fimmtudag var aðgangur að pubquizi Torfhildar heftur fyrir alla þá sem ekki höfðu félagsskírteini í höndum. Því hyggst Torfhildur halda umrætt pubquiz föstudaginn 24. október á Háskólatorginu kl 17.

 

Til mikils er að vinna og verður Hámubarinn opinn.

Allir velkomnir!


Pubquiz og leikhús

Torfhildur heldur Pubquiz á fimmtudaginn 16. október á skemmtistaðnum 22, 3. hæð. Torfhildur verður á staðnum frá kl 21 en quizið sjálft hefst um 10 leytið. Allir velkomnir og tilboð á barnum!

Tofhildur á einnig 6 miða á generalprufu á leikritinu Hart í bak í Þjóðleikhúsinu. Um leikritið má lesa hér. Sýningin er núna á fimmtudagskvöldið kl 8. Hægt er að skrá sig hér að neðan í athugasemdum, setjið netfang með til að fá upplýsingar um hvar megi nálgast miðana. Fyrstir koma fyrstir fá, aðeins 6 miðar í boði!

Torfhildur hvetur svo leikhúsgestina til að mæta á pubquizið eftir sýningu.


Októberfest

Torfhildur ætlar að hita upp fyrir októberfest á föstudaginn! Hittumst heima hjá Héðni, Heiðargerði 2 (grænt hús með hvítu þaki) kl 6. Þar býður Torfhildur upp á íslenskt öl og svo förum við öll saman á Októberfestið og drekkum það þýska.

Miðasala á festið er svo hafin í Háskólatorgi.

Armband fyrir fimmtudag og föstudag kostar 1500 kall og einn góður fylgir. Armband fyrir fimmtudag, föstudag og laugardag kostar 2500 kall og tveir bjórar fylgja. Stakur miði inn á fimmtudag og föstudag kostar 1000 kall í hurðinni.

ATH! Þar sem hvimleið röð hefur ávallt skapast í kringum inngang Októberfest-tjaldsins og margur stúdentinn hefur bókstaflega rignt niður í forina í þeirri bið höfum ákveðið að vera með forsölu á Októberfest og því hvetjum við stúdenta til að nýta sér það og sleppa við óþægindin.

Allir velkomnir, hlökkum til að sjá ykkur!

kveðja, Torfhildur.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.